




Lög Flakkara.
1. grein.
Nafn félagsins:
Félagið heitir Flakkarar, félag húsbílaeigenda, skammstafað FFH, kt: 700192-2109. Heimili þess og varnarþing er það sama og formanns hverju sinni. Félagssvæði þess er allt Ísland.
2. grein.
Tilgangur félagsins er:
a) Að standa vörð um hagsmuni húsbílaeigenda.
b) Að stuðla að kynnum áhugamanna um húsbíla og húsbílaferðalög og efla samstarf og samvinnu milli þeirra.
c) Að skipuleggja ferðir fyrir félagsmenn, bæði innanlands og utan.
d) Að hvetja félagsmenn til góðrar umgengni um landið.
e) Að efna til samstarfs við sambærileg félög innanlands sem erlendis.
3. grein.
Um inngöngu og aðild:
a) Umsókn í félagið skal senda til félagsstjórnar á þar til gerðum eyðublöðum eða á heimasíðu félagsins.
b) Félagar geta þeir einir orðið sem eiga lögskráða húsbíla.
c) Hjón og sambýlisfólk eru bæði félagar undir sama félagsnúmeri. Einhleypir félagar sem þess óska greiða 2/3 hluta félagsgjalds en geta þá ekki tekið með sér félaga í ferðir eða á samkomur félagsins nema full greiðsla komi fyrir.
d) Þeir félagsmenn sem eiga ekki húsbíla tímabundið, en kjósa að vera áfram í félaginu halda réttindum í allt að tvö ár, enda greiði þeir félagsgjöld á meðan. Ef sérstaklega stendur á hefur stjórn félagsins heimild til að lengja tímabilið óski viðkomandi félagar eftir því.
4. grein
Stjórn félagsins og nefndir:
a) Stjórn félagsins sem kosin er á aðalfundi skipa fimm félagsmenn og tveir til vara. Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Á hverju ári skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára og einn varamann til tveggja ára. Á hverju ári skal kjósa einn skoðunarmann reikninga til tveggja ára. Komi fram fleiri en ein tillaga, skal kjósa leynilega. Stjórnin skiptir með sér störfum.
b) Heimilt er að endurkjósa sama mann einu sinni í stjórn og síðan aftur eftir a.m.k. tveggja ára hlé frá stjórnarsetu.
c) Varamenn skulu jafnan boðaðir á stjórnarfundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema sem staðgenglar stjórnarmanna í forföllum þeirra.
d) Ferða- og skemmtinefnd skal vera starfandi í félaginu, skipuð að lágmarki félögum fimm félagsnúmera. Ferða- og skemmtinefnd er kosin á aðalfundi og er kjörtímabil hennar eitt ár á milli haustfunda.
e) Siðanefnd skal vera starfandi í félaginu, skipuð þremur félagsmönnum. Siðanefnd er kosin á haustfundi annað hvert ár og er kjörtímabil hennar tvö ár
f) Sparnaðarnefnd skal vera starfandi í félaginu, hún skal skipuð félögum þriggja félagsnúmera sem víðast af landinu. Sparnaðarnefnd er kosin á haustfundi annað hvert ár og er kjörtímabil hennar tvö ár.
g) Uppstillingarnefnd skal vera starfandi í félaginu skipuð þremur
félagsmönnum. Uppstillingarnefnd skal kosin á aðalfundi annað
hvert ár og er kjörtímabil hennar tvö ár.
h) Stjórn félagsins getur skipað aðrar nefndir tímabundið til
ákveðinna verkefna.
5. grein.
Starfssvið stjórnar:
a) Formaður er fulltrúi og ábyrgðarmaður félagsins út á við. Formaður undirritar bréf í nafni félagsins, hafi öðrum ekki verið gefið umboð til þess. Formaður boðar fundi félagsins, stýrir stjórnarfundum og semur fyrir þá dagskrá. Formanni er heimilt að skipa fundarstjóra á fundum félagsins enda ber hann ábyrgð á fundarstjórn. Formaður hefur eftirlit með starfsemi félagsins og hann hefur eftirlit með því að fylgt sé lögum þess og samþykktum í öllum greinum.
b) Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans og aðstoðar hann einnig eftir þörfum.
c) Ritari annast bókanir fundargerða í fundargerðabók. Skal þar getið þeirra mála er fram koma á hverjum fundi og niðurstöður þeirra. Heimilt er að hljóðrita það sem fram kemur á fundum enda liggi fyrir samþykki fundarins. Ritari ber ábyrgð á að fært sé af hljóðsnældu i fundagerðabók. Mættir stjórnarmenn skulu undirrita fundargerðir stjórnar. Undir aðalfundargerðir og aðra félagsfundi, rita fundarstjóri og fundarritari.
d) Meðstjórnandi gegnir störfum ritara í forföllum hans og aðstoðar aðra stjórnarmenn sé þess óskað.
e) Gjaldkeri er prókúruhafi félagsins ásamt formanni. Hann sér um fjárreiður félagsins, innheimtu og greiðslu reikninga. Einnig annast hann gerð ársreikninga.
f) Stjórn félagsins hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli aðalfunda og ber hún sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins.
g) Stjórn félagsins, sér um að tilnefna félagsmenn í lögskipaðar nefndir fyrir aðalfund. Skylt skal þó fundarstjóra að leita eftir tilnefningum úr fundarsal fyrir atkvæðagreiðslu.
h) Stjórn félagsins setur nánari reglur um störf nefnda.
6. grein.
Starfssvið nefnda:
Nefndir vinna ávallt í samráði við stjórn félagsins.
a) Ferða- og skemmtinefnd gerir tillögur að ferðum og ferðatilhögun sumarsins og sér einnig um hverskonar skemmtanir og uppákomur í ferðum á vegum félagsins yfir sumartímann.
b) Siðanefnd sér um að framfylgja siðareglum og taka á málum er varða velferð hins almenna félagsmanns.
c) Uppstillingarnefnd leitar eftir og tryggir framboð í stjórn og varastjórn félagsins, og í embætti félagskjörins skoðunarmanns. Skal hún skila tillögum til stjórnar tímanlega fyrir aðalfund.
d) Sparnaðarnefnd aflar auglýsinga og leitar eftir afslætti á vörum og þjónustu fyrir félagsmenn.
e) Nefndir sem stofna til útgjalda og/eða afla tekna í tengslum við nefndastörf geri stjórn félagsins grein fyrir því með uppgjöri til gjaldkera félagsins.
7. grein.
Aðalfundir og aðrir fundir:
Aðalfundur félagsins skal haldinn á tímabilinu 1. mars til 30. apríl ár hvert og er reikningsár félagsins almanaksárið. Til aðalfundar skal boðað bréflega með minnst 10 daga fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Formaður setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra og ritara fundarins.
2. Fundarstjóri kannar lögmæti fundarins og kynnir dagskrá hans.
3. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
4. Gjaldkeri útskýrir reikninga félagsins.
5. Umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og afgreiðsla.
6. Lagabreytingar ef fram koma.
7. Kosning stjórnar sbr. gr. 4.
8. Kosning skoðunarmanns reikninga sbr. gr. 4.
9. Kosning uppstillingarnefndar sbr. gr. 4.
10. Kosning ferða- og skemmtinefndar sbr. gr. 4.
11. Önnur mál.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Almennan félagsfund skal boða ef stjórninni þykir þurfa. Ennfremur ef a.m.k. tuttugu félagsmenn óska og þarf þá stjórninni að hafa borist skriflegt erindi þar um með minnst 20 daga fyrirvara.
8. grein.
Réttindi og skyldur félagsmanna:
a) Félagar hafa málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt á fundum félagsins svo og kjörgengi.
b) Félagar hafa þátttökurétt í ferðum félagsins og á samkomur þess.
c) Félagar njóta afsláttarkjara og fyrirgreiðslu sem félagið býður upp á.
d) Félagar skulu fylgja lögum félagsins.
e) Félagar skulu fjarlægja félagsnúmer og merki félagsins af bifreiðinni selji þeir bifreið sína eða hætta í félaginu.
f) Félagar skulu tilkynna stjórn um breytingar á högum svo sem, nýtt heimilisfang, símanúmer, netfang og breyting á bíl svo og endurnýja mynd af bílnum eftir þörfum.
g) Nýir félagar sendi félaginu mynd af sér við húsbílinn.
9. grein.
Haustfundur og boðun hans:
Haustfund skal halda á tímabilinu 1. september til 31. október ár hvert. Skal til hans boðað tryggilega með minnst 10 daga fyrirvara.
Dagskrá haustfundar skal vera sem hér segir:
1. Formaður setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra og ritara fundarins.
2. Fréttir frá stjórn og nefndum um sumarstarfið.
3. Kosning siðanefndar sbr. gr. 4.
4. Kosning sparnaðarnefndar sbr. gr. 4.
5. Ákvörðun félagsgjalda og inntökugjalds næsta árs.
6. Önnur mál.
10. grein.
Inntökugjald, félagsgjald og eindagi þeirra:
a) Félagsgjald og inntökugjald skal ákveða á haustfundi fyrir næsta ár.
b) Eindagi félagsgjalda er 31. mars ár hvert. Greiði félagsmaður ekki fyrir 1. júní er litið svo á að hann sé hættur og fellur hann þá út af félagaskrá. Þegar félagsmaður hefur greitt félagsgjaldið fær hann sent félagsskírteini og nýtur þá þeirra afslátta og fyrirgreiðslu sem félagið býður upp á.
c) Eftir aðalfund fá skuldlausir félagar sent félagatal eins fljótt og hægt er.
d) Ef gengið er í félagið eftir 15. september fellur árgjald niður það ár.
11. grein.
Brot gegn hagsmunum og lögum félagsins:
Í samráði við siðanefnd getur stjórn félagsins vikið félagsmanni úr félaginu ef hann verður vís að því að vinna gegn hagsmunum þess og/eða gerst brotlegur við lög félagsins. Stjórnin ákveður í samráði við siðanefndina hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni brott úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.
12. grein.
Félagið lagt niður:
Til að leggja félagið niður þarf ¾ hluta greiddra atkvæða að samþykkja tillögu þess efnis á aðalfundi.
Skulu þá eignir þess renna til uppbyggingar á þjónustu við húsbílafólk.
13. grein.
Um breytingu á lögunum:
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykki minnst 2/3 fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn a.m.k. 20 dögum fyrir aðalfund og skal geta þess í fundarboði að lagabreytingar verði á dagskrá.
Lög þannig samþykkt á aðalfundi 21. apríl 2011.
Nóvember 2023 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
29 | 30 | 31 | 1 | 2 | 3 | 4 |
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 1 | 2 |
Fyrri | Núna | Næsti |